Forsætisráðherra varar við árásum á konur á netinu

0
302
Katrín Jakobsdóttir ávarpar fund UNESCO á myndbandi
Katrín Jakobsdóttir ávarpar fund UNESCO á myndbandi. © UNESCO/Christelle ALIX

Netið. Hatursorðræða. UNESCO. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varaði við þeirri hættu, sem ekki síst konum, gæti stafað af netinu og samfélagsmiðlum í ávarpi í dag á ráðstefnu á vegum UNESCO.

Hún benti á að hatursorðræða og net-áreitni hefðu lagt líf fólks í rúst.

„Það er einnig sérstaklega áberandi hvernig spjótum er beint að konum, þar á meðal stjórnmálamönnum og opinberum persónum, með hótunum og kynferðislegri áreitni,” sagði Katrín.

Audray Azoulay forstjóri UNESCO ávarpar fundinn
Audray Azoulay forstjóri UNESCO ávarpar fundinn. © UNESCO/Christelle ALIX

„Markmiðið er bersýnilega að þagga niður í þeim og skerða áhrif þeirra. Þetta er í samræmi við þá tilhneigingu, sem við höfum séð áður. Þegar hefðbundnir valda-strúktúrar breytast og fleiri hópar öðlast áhrif,  verður slíkur afturkippur.“

Ávarp hennar var flutt af myndbandi við opnun ráðstefnunnar Internet for Trust. Ráðstefnan er á vegum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og  fer fram í París dagana 21.-23. febrúar.

Ráðstefnan, sem er sú fyrsta sinnar tegundar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, fjallar um hvernig unnt sé að móta regluverk utan um samfélagsmiðla þar sem tekist er á við hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu, samsæriskenningar og annað meiðandi efni en um leið standa vörð um tjáningarfrelsi og önnur mannréttindi.

Maria Ressa friðarverðlaunahafi Nóbels 2021.
Maria Ressa friðarverðlaunahafi Nóbels 2021. . © UNESCO/Christelle ALIX

Til grundvallar umræðum á ráðstefnunni eru einnig drög að viðmiðunarreglum sem unnar hafa verið í samráði við ólíka hópa haghafa um hvernig best sé að móta regluverk utan um samfélagsmiðla, sem stefnt er að vinna áfram og klára um mitt árið, segir í frétt forsætisráðuneytisins.

Auk forsætisráðherra og Audrey Azoulay, framkvæmdastýru UNESCO, má nefna á meðal ræðumanna Melissa Fleming framkvæmdastjóra samskipta hjá Sameinuðu þjóðunum, Lula Brasílíuforseta og Maria Ressa friðarverðlaunahafi Nóbels 2021.

Sjá einnig hér.