Fjarri fyrirsögnunum: Vargöldin á Haítí

0
13
Óöld í Cité Soleil í Port-au-Prince höfuðborg Haítí.
Óöld í Cité Soleil í Port-au-Prince höfuðborg Haítí. Mynd: UNOCHA/Giles Clarke

Fjarri fyrirsögnunum. Haítí.

Skilti þar sem stendur Heimsvandamál : Fjarri fyrirsögnum Sannkölluð vargöld ríkir á Haítí. Vopnaðir vígahópar vaða upp og hafa umkringt höfuðborgina, sett upp vegatálma á helstu samgönguæðum og stjórna aðgangi að vatni, mat og heilsugæslu. Vígasveitir hafa notað kynferðislegt ofbeldi til að skjóta landsmönnum skelk í bringu.

Um hvað snýst málið?

Her Haítí er lítill og illa vopnaður. Lögregla Haítí hefur ekki haft burði til að halda ofbeldinu í skefjum. Alþjóðlegrar aðstoðar er því þörf til að Haítíbúar geti lifað lífi sínu óáreittir án þess að óttast morð, mannrán eða nauðgun.

Samkvæmt fréttum eru 162 vígahópar starfandi, skipaðir þrjú þúsund vígamönnum. Þeir eru taldir ráða lögum og lofum í 80% höfuðborgarinnar Port-au-Prince.

Margir þeirra sem hafa lent á vergangi vegna vargaldarinnar hafast við í tjöldum.
Margir þeirra sem hafa lent á vergangi vegna vargaldarinnar hafast við í tjöldum. Giles Clarke/UN News.

Baksvið ástandsins

Haítí er fjölmennasta ríkið í Karíbahafinu og er á vestari helmingi eyjarinnar Hispanjólu, en austanmeginn er Dóminíkanska lýðveldið. Íbúarnir eru hálf tólfta milljón, en ríkið er innan við þriðjungur af Íslandi.

Haítí varð sjálfstætt árið 1804 eftir að uppreisn braust út gegn franskri nýlendustjórn vegna áforma Napóleons keisara um að endurreisa þrælahald. Bandaríkin hertóku Haítí 1915 og ríktu þar í skjóli hervalds til 1934.

Port-au-Prince höfuðborg Haíti.
Port-au-Prince höfuðborg Haíti. Mynd: WFP/Theresa Piorr

Haítíbúar hafa mátt þola pólitískan óstöðugleika og ofbeldishrinur stóran hluta sögunnar. Frá 1957 til 1986 ríktu þeir Duvalier feðgar; François (Papa Doc) og síðan Jean-Claude Duvallier (Baby Doc). Frá því einræðisstjórn Duvallier-feðga var steypt af stóli hefur ríkt óstöðugleiki. Kosningar hafa verið haldnar mis-reglulega og verið mis-lýðræðislegar. Herinn hefur tekið völdin, og Bandaríkin tvisvar sent her til landsins, 1994 og 2004.

Síðasti kosni forsetinn, Jovenel Moïse, var myrtur 2021 og síðan hefur meira eða minna verið pólitískt tómarúm.

Vannæring er vandamál, sem Sameinuðu þjóðirnar glíma við á Haítí
Vannæring er vandamál, sem Sameinuðu þjóðirnar glíma við á Haítí. Mynd WFP/Theresa Piorr

Áhrif á fólkið og umhverfið

Óöryggi hefur verið algjört undanfarin ár og óöldin stigmagnast. Frá 1.janúar til 9.september 2023 féllu 3 þúsund manns að talið er fyrir hendi vígamanna. Þá var 1500 manns rænt og lausnargjalds krafist.

Tvö hundruð þúsund eru á vergangi vegna óaldarinnar á Haítí.
Tvö hundruð þúsund eru á vergangi vegna óaldarinnar á Haítí. Mynd: BINUH/Boulet-Groulx

Sameinuðu þjóðirnar telja að 200 þúsund manns hafi hrakist frá heimilum sínum af ótta við ofbeldisverk. Tugir þúsunda barna geta ekki sótt skóla vegna öryggisleysis.

Annar hvor Haítíbúi býr við sárafátækt og hungur og hefur ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni.

Auk mannskæðra fellibylja, sem herjuðu á landið í tvígang 2008, varð gríðarlegur jarðskjálfti sem mældist 7 á Richter í ársbyrjun 2010. 316 þúsund manns týndu lífi og ein milljón manna missti heimili sín. Þrátt fyrir alþjóðlega aðstoð hefur Haítí enn ekki náð sér, en þetta er á meðal mannskæðustu náttúruhamfara sem um getur.

Matvælasending frá WFP á Haíti 2016. Þá olli fellibylurinn Matthew miklum skakkaföllum
Matvælasending frá WFP á Haíti 2016. Þá olli fellibylurinn Matthew miklum skakkaföllum. Mynd: UN Photo/Fred Fath

 Viðbrögð Sameinuðu þjóðanna

 Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heimilaði síðastliðið haust að send yrði alþjóðleg sveit til að aðstoða haítísku lögregluna. Kenía er í forystu hennar og er búist við eitt þúsund Keníabúar verði sendir til Haítí. Ólíkt friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna MINUSTAH (2004-2017) er sveitin ekki undir beinni stjórn samtakanna.

Maria Isabel Salvador sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna á Haítí sagði í síðustu skýrslu sinni til Öryggisráðsins að það væri þýðingarmikið að ná tökum á öryggisástandinu. Hins vegar væri aðeins hægt að koma á stöðugleika til langs tíma með opnu pólitísku ferli landsmanna sjálfra, þar á meðal trúverðugum kosningum.

Nemendur fá þá orku sem þarf til að geta einbeitt sér að námi þökk sé skólamáltíðum WFP.
Nemendur fá þá orku sem þarf til að geta einbeitt sér að námi þökk sé skólamáltíðum WFP. Mynd: WFP/Pedro Rodrigues

Sameinuðu þjóðirnar á Haítí (BINUH) hafa stutt viðræður andstæðra haítískra fylkinga. Samkomulag um pólitískar umbætur og gegnsæjar kosningar náðist í árslok 2022.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gert áætlun um mannúðarátak á Haítí. Talið er að 720 milljóna dala sé þörf til að hjálpa þremur milljónum bágstaddra Haítíbúa en aðeins hefur tekist að afla innan við fjórðungs þess fjár sem til þarf.

Haítíbúinn Iler Cambronne með myndarlegar kippu af banönum, sem hann ræktar fyrir WFP.
Haítíbúinn Iler Cambronne með myndarlegar kippu af banönum, sem hann ræktar fyrir WFP. Mynd: WFP/Pedro Rodrigues

Stofnanir Sameinuðu þjóðanna á vettvangi

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) telur að þrjár milljónir barna á Haítí þurfi á mannúðaraðstoð að halda vegna vaxandi ofbeldis, vannæringar, kólerufaraldurs og skorti á grundvallarþjónustu.

420 þúsund börn fá daglega skólamáltíð um allt landið með stuðningi WFP, Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna.

Alþjóða heilbrigðismálastofnuinin (WHO) vinnur að því að efla viðbrögð við kóleru og farsóttum í samstarfi við heimamenn.

Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) hefur fjölgað starfsfólki á Haítí og vinnur þar með CARE  International, ríkisstjórninni og öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna.

Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun
Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun

 Hvaða heimsmarkmið eru í veði?

Svarið er nánast öll. Þó má nefna sérstaklega Heimsmarkmið #3 um heilbrigði, #5 um jafnrétti kynjanna, #8 um atvinnu og hagvöxt, #10 um að draga úr ójöfnuði og #16 um frið, réttlæti og öflugar stofnanir.

 Hvernig getur almenningur lagt lóð á vogarskálarnar?  

Í fyrsta lagi með því að vekja athygli á ástandinu.

Einnig má láta fé af hendi rakna til starfs Sameinuðu þjóðanna á vettvangi.

  • Styðjið jafnrétti kynjanna. Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna: UN WOMEN 
  • Gefið bágstöddum Haítíbúum matvæli. Matvælaáætlunin: WFP 
  •  Aðstoðið börn á Haíti: UNICEF 
  • Hjálpið við að stemma stigu við farsóttum: WHO 

Nánar um viðbrögð Sameinuðu þjóðanna hér

Sjá einnig hér.