Hershöfðingi og stjórnmálafræðingur í þágu friðar

0
623
Gjerde Friðargæsla SÞ Kýpur
Ingrid Margrethe Gjerde. Mynd: UNFICYP

Norski herforinginn Ingrid Margrethe Gjerde þurfti ekki langan umhugsunarfrest þegar hún var hvatt til að sækja um stöðu yfirmanns hernaðararms friðargæslusveitar Sameinuðu þjóðanna á Kýpur. Hún taldi reynslu sína og menntun koma að gagni og hafði líka góða fyrirmynd því hún er önnur norska konan sem gegnir þessu krefjandi starfi.  Gjerde er í kastljósi okkar sem Norðurlandabúi hjá Sameinuðu þjóðunum.

„Ég ber mikla ábyrgð en þetta er fagleg og persónuleg áskorun að fá tækifæri til að stýra verkefni sem ég tel að gegn þýðingarmiklu hlutverki,“ segir Gjerde í samtali við vefsíðu UNRIC.

Ein elsta friðargæslusveit SÞ

Kýpur Friðargæsla
Frá vinstri Elizabeth Spehar, Jean-Pierre Lacroix, framkvæmdastjóri Friðargæslu SÞ, Ingrid Gjerde og argentískir liðsforingjar. Mynd: UNFICYP

Friðargæslusveitin á Kýpur (UNFICYP) var stofnuð 1964 í kjölfar átaka á milli tveggja þjóðarbrota, annars vegar grískumælandi og hins vegar tyrkneskmælandi.

„Friðargæslusveitin tryggir að það er friður og ró. Með því er greitt fyrir því að pólitísk lausn finnist því það er forsenda þess að hægt sé að semja,“ segir Gjerde sem tók við starfinu í mars 2021.

Jafnvægislist

Tyrkir gerðu innrás á Kýpur 1974. Eftir það hefur eynni verið skipt. Á milli þjóðarbrotanna er svæði þar sem Sameinuðu þjóðirnar hafa tekið sér stöðu. Þetta vopnl- og hlutlausa svæði er 180 kílómetra langt yfir þvera eyna og er í allt 346 ferkílómetrar.

Grískumælandi Kýpverjar eru 78.6% eyjarskeggja, en tyrkneskumælandi eru rétt tæplega 20% (2011). Einnig má nefna hópa Armena og kristinna Líbana (Maróníta) og búa þeir fyrst og fremst í höfuðborginni Nikósíu.

„Við leitumst við að inna vinnu okkar af hendi með því að forðast hvers kyns ögranir til þess að átök blossi ekki upp á ný. Það er jafnvægislist að sýna deilendum klárlega hvað leyfist og hvað ekki á hlutlausa svæðinu. Á sama tíma þarf maður að vera í svo góðu talsambandi að þeir treysti Sameinuðu þjóðunum og pólitíska ferlinu,“ segir Gjerdei.

Hún stýrir herstyrk friðargæslusveitarinnar en aðalstarfið er að fylgjast með. „Við fylgjumst með herstyrk beggja aðila. Einnig þeim sem af ólíkum ástæðum fá að dvelja á hlutlausa beltinu. Bændur frá báðum landshlutum yrkja jörðina og auk þess eru menningarverðmæti á borð við grafreiti og kirkjur,“ segir Gjerde.

Friðargæsluliðar eru á ferð akandi, gangandi og hjólandi. Þeir vinna náið með lögregluliði Sameinuðu þjóðanna og borgaralega armi þeirra. Þessar þrjár einingar vinna saman í því sem kallað er á fagmáli samþættuð sveit (integrated mission).

Hershöfðingi og stjórnmálafræðingur

Elizabeth Spehar til vinstri er yfir sveit Sameinuðu þjóðanna en Gerde yfir hernaðararmi friðargæslunnar. Mynd: UNFICYP.

 Ingrid Gjerde hóf feril sinní hernum árið 1988 með því að innritast í Befalsskolen for Hærens sanitet, og síðan hefur hún unnið að ýmsum málefnum  í hern og varnarmálum, bæði innanlands og utan. Hún hefur einnig meistarapróf í stjórmálafræði frá Oslóar-háskóla.

„Hápunktarnir á ferlinum hafa verið í verkefnum erlendis því þá hef ég getað nýtt mér alla hæfni mína. Í núverandi starfi hef ég getað fært mér í nyt stjórnmálafræðina og áhuga minn á alþjóðamálum almennt. “  Hún leggur áherslu á að til að ná árangri þurfi hún að skilja deiluna fyllilega og vera virkur þátttakandi í umræðum.

Friðargæsla Kýpur.
Reiðhjól eru notuð við eftirlitsstörf. Mynd: UNFICYP

Gjerde á að baki störf í Líbanon, Bosníu-Hersegóvínu og Afganistan. Það er því ekkert nýtt fyrir hana að þurfa að aðlagast nýrri menningu. „Að mínu mati er það stórkostlegt að kynnast annari menningu og hér á eynni eru býsna margar. Að auki er fólk frá 16 mismunandi þjóðum í friðargæslusveitinni og það er mjög gefandi. Vissulega krefjandi stundum en fyrst og fremst gefandi,“ segir hún brosandi.

Þrátt fyrir að vinnudagurinn sé langur, segist fimmtíu og tveggja ára gamli herforinginn ætla að gefa sér tíma til að kynnast eynni. „ Ég hlakka til að sökkva mér ofan í spennandi sögu Kýpur, kynnast matargerðarlistinni og kynnast fólkinu betur. Svo á ég tuttugu og eins árs gamla tvíbura og eiginmann sem ég vona að muni heimsækja mig oft,“ segir hún.

Krefjandi tími

Markmið UNFICYP eru þrenn. Í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að átök brjótist út að nýju. Í öðru lagi að halda uppi lögum og reglu. Í þriðja lagi að leitast við að sjá til að ástandið verið eðlilegt að nýju. Gjerde bendir á að síðastnenfda atriðið sé umdeilt því hvað er eðlilegt ástand?

Friðargæsla Kýpur
Liðskönnun. Mynd: UNFICYP

Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið hafa skilgreint eðlilegt ástand á þann hátt að Kýpur sé ríki sem virki vel þar sem valdi sé dreift til landshluta. En dags daglega mótast starf friðargæslusveitarinnar af því að engin lausn er í sjónmáli.

„Það er ekki aðeins deilendur á staðnum sem þarf að fást við, heldur stórpólitík. Það eru margir aðilar sem hafa ríkra hagsmuna að gæta. Þetta er því enn margslungnara en það væri ef það væri bara tveir aðilar sem þyrftu að tala saman,“ útskýrir Gjerde.

Á árunum 2015 til 2017 voru deilendur og stórveldi nærri því að að finna lausn á helstu vandamálum, bæði um skiptingu og stjórnarhætti. Norðmaðurinn Espen Barth Eide stýrði viðræðum þangað til í ágúst 2017 sem sérstakur ráðgjafi António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

„Eftir að þessar viðræður rötuðu í blindgötu var allt lokað og læst. Deilendur vildu ekki hittast og því hafa litlar líkur verið á lausn.“

Friðargæsla Kýpur
Eftirlitsstöð. Mynd: UNFICYP

Öllum 9 landamærastöðvum var lokað vegna COVID-19 og þar með voru engar samgöngua á milli norður og suður. Umræður og deilur um bólusetningar og almennt um stjórn á heimsfaraldrinum hafa gert samskiptin enn erfiðari en ella. Deilendur hittust þó í Genf í apríl síðastliðnum til að reyna að koma viðræðum af stað að nýju. Urðu þeir að minnsta kosti sammála um að hittast í haust.

Við  leggjum lóð á vogarskálarnar

 Noregur er í hópi þeirra ríkja sem leggja til flesta friðargæsluliða. Í dag eru norskir her- og lögreglumenn auk sérfræðing í þjónustu Sameinuðu þjóðanna í fjórum friðargæsluverkefnum.

„Fyrir smáþjóð er það gríðarlega mikilvægt að til séu alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar. Þær tryggja að rödd okkar heyrist í heiminum. Þess vegna ber okkur að nota tækifærið bæði til að leggja fram okkar skerf en einnig til að láta rödd okkar heyrast. Ég er sannfærð um að því meira sem við leggjum til, því meira er hlustað á okkur,“ undirstrikar Gjerde.

Þessa stundina eru tólf friðargæsluverkefni starfrækt af hálfu Sameinuðu þjóðanna. 90 þusund friðargæsluliðar hjálpa ríkjum að brúa bilið á milli átaka og friðar.

Mynd. UNFICYP

„Það má gagnrýna Sameinuðu þjóðirnar fyrir skrifræði en samtökin eru þýðingarmikil fyrir frið og stöðugleika í heiminum. Margar rannsóknir sýna að friðargæslusveitir hafa með hlutfallslega litlum herstyrk náð að lækka átakastig. Það hefur síðan áreiðanlega bjarga mannslífum og stuðlað að lausn átaka,“ segir Gjerde.

Loks bendir hún á að skriffinnar SÞ og skilningur á millir ólíkra menningi leggi grunn að samstarfi. „Það getur ekki ein þjóð tranað sér fram og skipað fyrir. Við verðum að vinna saman.“

Sjá nánar um Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna til dæmis hér og hér.