Kísildalir heimsins ættu ekki að verða dauðadalir kvenréttinda

0
333
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
259 milljónir færri konur hafa aðgang að netinu en karlar. Mynd: Carly Learson / UNFPA

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Jafnrétti kynjanna. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gerir stöðu kvenna í tækni og vísindum og hinum stafræna heimi að umræðuefni í grein, sem hann skrifar í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Greinin birtist hér á landi í Morgunblaðinu og fer hér á eftir.

—-

António Guterres. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna.
António Guterres. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Sá árangur sem náðst hefur í réttindamálum kvenna er að hverfa fyrir augum okkar allra um víða veröld. Síðustu spár benda til að miðað við núverandi þróun taki 300 ár að ná fullu jafnrétti kynjanna.

Alheimsvandi, frá stríðinu í Úkraínu til loftslagsvárinnar, kemur harðast niður á konum og stúlkum. Hluti af andróðri gegn lýðræði, er að grafið er undan rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama og ákvörðunum um eigið líf.

Gerum betur

Tvær tölur sýna hversu langt er í land:

Á tíu mínútna fresti er kona eða stúlka myrt af ættingja eða ástvini.

Og kona deyr á tveggja mínútna fresti á meðgöngu eða við barnsfæðingu. Flest slíkra dauðsfalla eru óþörf.

Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, ber okkur að skuldbinda okkur til að gera betur.  Okkur ber að snúa við þessari skelfilegu þróun og rísa upp í þágu lífs og réttinda kvenna og stúlkna, alls staðar.

Þetta er eitt af mínum helstu forgansmálum og miðlægur hluti starfs Sameinuðu þjóðanna um allan heim.  .

Frá Suður-Súdan til Myanmar styðjum við konur og stúlkur á krepputímum og tryggjum að raddir þeirra heyrist í friðarferlum.

Amina Mohammed vara-aðalframkvæmdastjóri heimsótti nýlega Afganistan. Skilaboð hennar til yfirvalda voru skýr. Konum og stúkum ber að njóta grundvallar-mannréttinda og við munum aldrei hætta baráttunni fyrir þeim.

Ginnungagap

Á þessu ári er kastljósinu beint að ginnungagapi á mili kynjanna í vísindum, tækni og nýsköpun á Alþjóðlega kvennadeginum. 21% líklegra er að karlar sé á netinu en konur og rúmlega 50% líklegra í lágtekjuríkjum.

En jafnvel ríkustu löndin tapa vegna kynbundinna staðalímynda og sögulegrar hlutdrægni. Í tæknibransanum starfa tvisvar sinnum fleiri karlar en konur. Í gervigreindariðnaðinum fimmfalt fleiri.

Ákvarðanir i stjórnmálum og viðskiptum byggja á tölum upplýsingaiðnaðarins. En þar er oft og tíðum litið framhjá kynjamismuni og konur jafnvel algjörlega sniðgengnar.

 Við ættum að hafa vara á okkur gagnvart vörum og þjónustu, sem rótfesta kynjamisrétti frá upphafi og innleiða feðraveldi og kvenfyrirlitiningu í stafrænan heim.

Kísildalir heimsins ættu ekki að verða dauðadalir kvenréttinda.

Læknisfræðilegar ákvarðanir sem byggja á tölfræði unnum útfrá líkömum karla, geta ekki bara verið skaðlegar konum, heldur banvænar.

Feðraveldi í stafrænum heimi

Mismunum gagnvart konum í vísindum og tækni eru afurð aldagamals feðraveldis, mismununar og skaðlegra staðalímynda. Aðeins 3% Nóbelsverðlauna í vísindagreinum hafa komið í hlut kvenna frá 1901. Og konur á netinu, þar á meðal vísindamenn og blaðamenn, sæta oft kynferðislegri orðræðu og árásum, sem ætlað er að valda þeim skömm og þagga niður í þeim.

En þær láta ekki þagga niður í sér. Konur og stúlkur um allan heim krefjast rétinda sinna og orð þeirra bergmála um víða veröld.

Við þurfum á aðgerðum að halda á mörgum vígstöðvum til að tryggja að konur og stúlkur leggi sín lóð að fullu á vogarskálar þekkingar í vísindum og tækni.

Brjóta þarf niður múra, frá tölfræði sem veldur mismunun til staðalímynda, sem hrekja stúlkur á unga aldri frá því að leggja stund á vísindagreinar.

Kvótar ef þörf krefur

Þeim, sem taka ákvarðanir um hvaðeina, ber að auka þátttöku kvenna og forystu í vísindum og tækni, með kvótum ef þörf krefur.

Hér er þörf á sköpunargleði því breikka þarf ráðninga-rásir. Seiglu er þörf, því kynbundinn ójöfnuður er þrálátur og breytingar verða ekki sjálfkrafa. Þetta þarf að setja í forgang og fylgja því eftir. Þessi aðferð er farin að skila árangri hjá Sameinuðu þjóðunum, en við höfum okkar eigin herfræði við að jafna stöðu kynjanna á meðal starfsfólks.

Við þurfum einnig á að gerðum að halda til að skapa öruggt stafrænt umhverfi fyrir konum. Draga þarf þá til ábyrgðar sem gerast sekir um áreiti á netinu og þá miðla sem leyfa slíkt.

Sameinuðu þjóðirnar vinna með ríkisstjórnum, borgaralegu samfélagi, einkageiranum og öðrum við að skapa siðareglur, sem miða að því að minnka skaða og auka ábyrgð á stafrænum vettvangi, en standa á sama tíma vörð um tjáningarfrelsi.

Ekki munaður

Réttindi kvenna eru ekki munaður, sem bíða má þar til loftslagsvandinn hefur verið leystur, bundinn endir á fátækt og betri heimur skapaður.

Fjárfestingar í krafti kvenna og stúlkna er besta leiðin til að auka veg fólks, samfélaga og ríkja og til að ná Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Við skulum vinna í sameiningu að opnari, réttlátari heimi velmegunar fyrir konur og stúlkur, karla og drengi hvarvetna.