Kynþáttamismunun: Dönum gert að biðjast afsökunar

0
304
Kynþáttamismunun
Nefndin um kynþáttamismunun situr í Genf. Mynd: UN Photo.

Kynþáttamismunun. Danmörk lét undir höfuð leggjast að grípa til skilvirkra ráðstafana þegar haldin var sýning á listaverkum, sem höfðu að geyma rasískar myndir. Þetta er niðurstaða Nefndar Sameinuðu þjóðanna um upprætingu kynþátta-mismununar (CERD).

Nefndin gaf út úrskurð eftir kæru Momodu Jallow fyrrverand talsmanns Samtaka fólks af afrískum uppruna í Svíþjóð og fulltrúa evrópskra samtaka gegn kynþáthatri.

 „Ég tel að það sé ekki fullnægjandi að láta nægja að segja að kynþáttamismunun sé refsiverð á pappírnum,“ segir nefndarmaðurinn  Mehrdad Payandeh.

„Það ber að hrinda í framkvæmd á skilvirkan hátt lögum, sem banna kynþáttamismunun.”

Kynþáttamismunun
Kynþáttamismunun. Kristjánsborgarhöll sem hýsir danska þingið.

Kæran snérist um listaverkasýningu sem Danski þjóðarflokkurinn hélt í danska þinginu, auk gallerís í einkaeigu í Kaupmannahöfn 2014.

Meðal annars var sýnd mynd af Jallow og tveimur öðrum hörundsdökkum einstaklingum hangandi af brú. Undir stóð  “hang on, afrofobians”. Á annari mynd var Jallow sýndur sem flótta-þræll og undir myndinni stóð „þrælinn okkar er flúinn. Auk þess var sýnd mynd af tveimur leiðtogum Roma-fólks með textanum: „Sígauna-glæpir eru stundum góðir.”

Dæmdur í Svíþjóð

Höfundur þessara mynda hafði verið dæmdur í Svíþjóð fyrir níð og að espa upp hatur gegn tilteknum kynþætti. Myndirnar voru sýndar í Kaupmannahöfn með skýringartextum, byggðum á viðtölum listamannsins. Þar skýrði hann bakgrunn myndanna og tilgang. Einnig var greint frá dómum sænskra dómstóla.  

Kynþáttamismunun
Momodu Jallow, sem kærði kynþáttamismunun, situr nú á sænska þinginu. Mynd: Jessica Segerberg
Creative Commons Zero, Public Domain Dedication

Jallow kærði listamanninn og skipuleggjendur sýningarinnar til danskra yfirvalda á grundvelli kynþáttamismununar. Saksóknari í Kaupmannahöfn hóf rannsókn en ákvað að hætta málarekstri. Það gerði hann á grundvelli danskra laga og með hliðsjón af tíundu grein Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.

Eftir að áfrýjun Jallows var hafnað í Danmörku, sendi hann nefnd Sameinuðu þjóðanna málið 2018.

Hélt hann því fram að ákvörðunin um að stöðva rannsóknina fæli í sér brot á ákvæðum um bann við yfirburði kynþátta, hatri og hvatningu til kynþáttamismununar í Sáttmálanum um upprætingu hvers kyns kynþáttamismununar.

Rasísk hatursorðræða

 Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að í myndunum fælist rasísk hatursorðræða. Dreifing þeirra fæli í sér dreifingu hugmynda sem byggja á drottnun eins kynþáttar yfir öðrum, hvatingu til haturs, smánunar eða mismununar.

 Nefndin benti á mikilvægi þess að feta milliveg á milli tjáningarfrelsis og skyldunnar til að berjast gegn rasískri hatursorðræðu.

„Sumar þessara mynda sýndu einstaka baráttumenn gegn mismunun með niðurlægjandi skilaboðum, sem geta talist hvatning til kynþáttahaturs og ofbeldis,“ sagði Payandeh.

„Með því að sýna blökkumenn og Róma-fólk á niðurlægjandi hátt, snerta myndirnar ekki aðeins einstaklingana heldur einnig aðra í þessum hópum samkvæmt sáttmálanum,“ bætti hann við.

Nefndin úrskurðaði að dönsk stjórnvöld hefðu vanrækt að bregðast á fullnægjandi hátt við til þess að berjast gegn þessari kynþáttalegu mismunun. Af þeim sökum bæri Danmörku að biðjast kæranda afsökunar og borga honum fullar skaðabætur.

Bakgrunnur

Nefndin um upprætingu kynþáttamismununar fylgist með þvi að Ríki fylgi ákvæðum Sáttmálans um upprætingu hvers kyns kynþáttamismununar

Í nefndinni eiga sæti 18 meðlimir, sem eru óháðir mannréttindasérfræðingar. Þeir koma úr öllum heimshornum og starfa í eigin nafni og eru ekki fulltrúar einstakra ríkja.

Sjá einnig hér.