Punktaletur: einföld en byltingarkennd uppfinning

0
303
Leiðbeiningar um kosningar í Sierra Leone á punktaletri.
Leiðbeiningar um kosningar í Sierra Leone á punktaletri. UNDP Sierra Leone/Lilah Gaafar

Alþjóðlegur dagur punktaleturs. Alþjóðlegur dagur punktaleturs er haldinn 4.janúar ár hvert. Punktaletur er einnig nefnt blindraletur á íslensku en á flestum öðrum tungumálum er það kennt við Louis Braille höfund letursins á fyrri hluta nítjándu aldar. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ákvað 2019 að 4.janúar skyldi vera Alþjóðlegur dagur punktaleturs. Þá voru 200 ár liðin frá fæðingu Louis Braille.

Tilgangur dagsins er að vekja athygli á mikilvægi punktaletursins til að gera ýmiss konar lesefni aðgengilegt fyrir blinda og sjónskerta einstaklinga um allan heim.

Punktaletrið á íslensku.
Punktaletrið á íslensku.

Grunnurinn í blindraletrinu eru sex punktar sem raðað er í tvær raðir lóðrétt með þremur punktum í hverri röð, segir á vef Blindrafélags Íslands. Punktarnir eru gjarnan nefndir með númerum, punktar einn, tveir og þrír í vinstri röð og punktar fjórir, fimm og sex í þeirri hægri. Samsetning punktanna sex getur verið á 63 mismunandi vegu og getur táknað bókstafi, tölur, ýmis tákn eins og kommur, upphrópunarmerki o.s.frv. Ákveðið bil er á milli punktanna sem er nákvæmlega útreiknað til að tryggja að hægt sé að finna samsetningu hvers stafs/tákns fremst á fingurgómnum.

Blindaðist þriggja ára

Braille höfundur letursins blindaðist þriggja ára gamall í slysi. Tólf ára gamall hlýddi hann á fyrirlestur franska liðsforingjans Charles Barbiers, höfund leturs sem talið var að kæmi blindum að notum. Letrið átti upphaflega að gera hermönnum kleift að hafa orðalaus samskipti í myrkri, en Barbier reyndi að aðlaga það að þörfum sjónskertra.

Þegar Barbier lét undir höfuð leggjast að svara bréfi hins tólf ára gamla Braille, tók drengurinn sig til og einfaldaði og betrumbætti kerfið til muna. Það var að mestu tilbúið 1824 en gefið út fimm árum síðar.

Vinsældir þess jukust hægt og bítandi, en það var ekki fyrr en um miðja 20.öld sem samræmt enskt punktaletur var samþykkt og um svipað leyti voru kínverskar og arabískar útgáfur orðnar útbreiddar.

Punktaletur Braille skiptir miklu máli á vettvangi Sameinuðu þjóðanna við að hrinda í framkvæmd hugsjónum Samningsins um réttindi fatlaðs fólks. Markmið samningsins  er meðal annars að breyta viðhorfum til fatlaðs fólks þannig að ekki sé litið á það sem þiggjendur ölmusu, læknisþjónustu og félagslegrar verndar, heldur sem þegna sem njóti réttinda. Þjóðfélagsþegna sem geti krafist þessara réttinda og tekið ákvarðanir sem byggja á frjálsu og upplýstu samþykkti, auk þess að vera virkir þjóðfélagsþegnar.

Sjá einnig hér og hér