Varðveisla tungumála frumbyggja á Norðurlöndum

0
330
Börn í Uummannaq.
Börn í Uummannaq. Mynd: UN Photo/Mark Garten

Alþjóðlegur áratugur mála frumbyggja 2022-2032. Þótt frumbyggjar teljist aðeins 6% jarðarbúa tala þeir mun stærri hluta tungumála veraldar. Af 6700 tungumálum heims tala frumbyggjar 4000. Markmið alþjóðlegs áratugar frumbyggja 2022-2032 er að stuðla að því að varðveita, endurlífga og efla mál þeirra.

 Tungumál Grænlendinga og Sama

Sama-fáni við hún við Helsinki-háskóla.
Sama-fáni við hún við Helsinki-háskóla. Mynd: JoAlanen
Creative Commons Zero, Public Domain Dedication

 Þótt almennt sé talað um grænlensku er tungumálaflóran á Grænlandi öllu fjölbreyttari og hefur valdið yfirvöldum nokkrum höfuðverk. Þrjár tungur eða mállýskur eru talaðar á Grænlandi. Vestur-grænlenska er algengust, þar á eftir er austur-grænlenska, en norður-grænlenska eða Túle-mállýskan er minnst þeirra. Við þetta bætist danskan og í sívaxandi mæli enska. Af þessu má ráða að við ýmsar áskoranir er að glíma í tungumála-stefnumótun eyjarinnar.

Samar eru einu frumbyggjar sem viðurkenndir eru sem slíkir innan ríkja Evrópusambandsins, enda standa Grænlendingar utan þess. Samíska er að sama skapi eina tungumál frumbyggja í Evrópu og er sögð skyldust austur finnskum málum, þ.e.a.s.finnsku og eistnesku.

  Þrjár mállýskur auk dönsku. Og ensku?

Talið er að Inúítar hafi komið til Grænlands frá Kanada, handan Baffin-flóa. Langflestir settust að á vesturströnd Grænlands en færri austanmegin. Þriðji hópurinn settist að á norðurhluta eyjarinnar þar sem nú heitir Qaanaaq – áður nefnt Túle. Mállýskur austurs og vesturs skiljast þokkalega innbyrðis en norður grænlenska er mun skyldari þeirri tungu sem töluð er í Norð-Austur Kanada.

Konur í Uummannaq.
Konur í Uummannaq. Mynd UN Photo/Mark Garten

Á síðustu þrjú hundruð árum hefur danska orðið mikilvægt tungumál vegna yfirráða Dana. Enska er svo farin að ryðja sér til rúms, ekki síst vegna viðskipta og alþjóðlegra tengsla.

Stjórnsýslumál

Grænlenska er opinbert mál Grænlands en danska leikur enn stórt hlutverk. En þótt grænlenska sé opinbert mál ríkir nokkur togstreita. Innan stjórnmála- og stjórnsýslugeirans er danska ríkjandi en meirihluti íbúanna – 70% – talar aðallega grænlensku.

Áþreifanlegt dæmi er að stærstur hluti námsefnis háskólans í Nuuk er kenndur á dönsku eða ensku, ekki grænlensku. Þetta setur vissulega strik í reikning þeirra sem ekki tala þessi erlendu mál, eða ekki nægilega vel. Þeir eru í reynd útilokaðir frá æðri menntun. Svipaða sögu er að segja af réttarkerfinu.

Nuuk höfuðstaður Grænlands.
Nuuk höfuðstaður Grænlands. Thomas Leth-Olsen
Creative Commons Attribution-Share Alike 2.0

Hin flóknu tengsl á milli málanna og menningarleg og pólitísk áhrif eru veruleg áskorun innan grænlensks samfélags í dag. Efling grænlenskra mála er þýðingarmikil í viðleitni til að slá skjaldborg um menningu, sjálfsmynd og lífsstíl Inútía.

Á hinn bóginn er flókið mál að breyta máli stjórnsýslunnar og nýtur það ekki óskoraðs stuðnings allra.

Góðu fréttirnar eru þær að grænlenska hefur sterka stöðu sem opinbert mál; miklu sterkari en mál Inúíta annars staðar í heiminum. Spurningin er hins vegar sú hvaða mál eða mállýskur bera að efla til lengri tíma litið.

Margar samískar mállýskur   

Aili Keskitalo forseti Samaþingsins í Noregi ávarpar Allsherjarþingið í tilefni af Alþjóðlegu ári frumbyggjamála 2019.
Aili Keskitalo forseti Samaþingsins í Noregi ávarpar Allsherjarþingið í tilefni af Alþjóðlegu ári frumbyggjamála 2019.

 Talið er að mál Sama hafi borist til Finnlands og Norðurlanda við upphaf okkar tímatals. Hafa ber í huga að þegar talað er um samísku er vísað til fleiri en einnar tungu, eða að minnsta kosti mállýskna. Tungumál Sama er talað í fjórum löndum; Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Rússlandi. Fjöldi Sama er talinn á bilinu 60 til 100 þúsund.

Nútíma samíska hefur þróast út frá samískum mállýskum sem eru níu talsins. Vestur samísku mállýskurnar eru kallaðar, sunnlenskar, norðlenskar eða kenndar við Umeå, Piitimen og Vlach. Austur samíski mállýskuhópurinn inniheldur Inari, Koltan, Kildin og Turjan samísku.

 Tungumálalög Sama

Skófatnaður og skrautmunir samískrar ættar á safni í Osló.
Skófatnaður og skrautmunir samískrar ættar á safni í Osló. Mynd: Saamiblog: http://saamiblog.blogspot.com/
Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0

Samíska nýtur opinberrar stöðu í Noregi og Finnlandi, en tungumálalögin eru mismunandi. Samkvæmt finnsku stjórnarskránni hafa Samar, sem fumbyggjaþjóð, rétt til að viðhalda og þróa tungumál sitt og menningu. Í Svíþjóð nýtur tungumála Sama verndar til jafns við önnur minnihlutamál eins og mál Róma, fólks finnskumælandi Svía og Tornio-Laxon.

 Viðurkennt hefur verið í marga áratugi að samískar tungur eigi undir högg að sækja. Minnstu málin, Inarin og Koltan samíska, eru í mikilli hættu. Taka verður með í reikninginn að meirihluti Sama býr nú utan heimalandsins. Þetta gerir enn erfiðara að varðveita tungumála-réttindin.

Þrátt fyrir þetta vex samísku fiskur um hrygg. Fjölmiðlar á samísku reyna að endurvekja málið. Orð og orðatiltæki sem voru horfin úr málinu, hafa verið endurlífguð og ný orð búin til.

 Alþjóðlegur áratugur frumbyggjamála

Ákafar umræður á fundi fastavettvangs um málefni frumbyggja hjá Sameinuðu þjóðunum.
Ákafar umræður á fundi fastavettvangs um málefni frumbyggja hjá Sameinuðu þjóðunum. Mynd: UN Photo/Manuel Elías

Það var Fasta-vettvangur um málefni frumbyggja (The Permanent Forum on Indigenous Issues) sem lagði til við Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að áratugurinn frá 2022 til 2032 yrði helgaður tungumálum frumbyggja.  Markmiðið er að beina athygli heimsins að alvarlegri stöðu margra frumbyggjamála og fylkja liði allra hlutaðeigandi til að varðveita, endurlífga og efla málin.