Afganistan: Guterres hvetur til stillingar 

0
642
Afganistan
Kabúl. Photo UNAMA/Fardin Waezi

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt Talibana og aðrar stríðandi fylkingar í Afganistan til að sýna „stillingu og stofna lífi fólks ekki í hættu.“ Hann hvatti sérstaklega til að greitt yrði fyrir því að mannúðarastoð kæmist til skila.

Sveitir Talibana náðu Kabúl höfuðborg Afganistans á sitt vald í gær. Guterres sagði í yfirlýsingu að hann hefði miklar áhyggjur af gangi máli. Hundruð þúsunda manna hafa lagt á flótta. Fréttir hafa borist af alvarlegum mannréttindabrotum þar sem átök hafa verið hörðust.

Vernda ber réttindi kvenna

Aðalframkvæmdastjórinn lýsti sérstaklega áhyggjum af framtíð kvenna og stúlkna. Vernda bæti þann árangur sem náðst hefði og binda þyrfti enda á brot á réttindum þeirra.

Hann hvatti Talibana og aðra deilendur til að tryggja að alþjóðlegir mannúðarsamningar og samningar um réttindi og frelsi fólks yrðu virtir.

Guterres hvetur til þess að hjálparstarfsmenn fái óhindraðan aðgang til að koma lífsnauðsynlegri aðstoð til skila til nauðstaddra.

SÞ styðja frið í Afganistan

„Sameinuðu þjóðirnar eru staðráðnar í því að leggja sitt af mörkunum til að friðsamleg lausn finnist. Vernda ber mannréttindi allra Afgana, sérstaklega kvenna og stúlkna og koma mannúðaraðstoð til þeirra sem þurfa,“ segir í yfirlýsingu Guterres.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræðir ástandið í Afganistan í dag.