Guterres segir að draga beri olíuiðnaðinn til ábyrgðar

0
252
Guterres ávarpar World Economic Forum.
Guterres ávarpar World Economic Forum. Mynd: SÞ.

Loftslagsbreytingar. Norður-suður. Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að sumum framleiðendum jarðefnaeldsneytis hafi lengi verið fullkunnugt um hvaða afleiðingar framleiðsla þeirra hefði á loftslagið.

Í ræðu á Efnahagsmálaþinginu í Davos í Sviss  (World Economic Forum) sagði Guterres að mannkynið „daðraði nú við loftslagsstórslys.“

„Sú skuldbinding um að takmarka hlýnun við 1.5 gráðu hefur nánast orðið að engu. Án frekari aðgerða stefnum við á 2.8 gráðu hlýðnun,“ sagði Guterres.

Hann benti á skelfilegar afleiðingarnar, sem myndu gera suma hluta jarðar óbyggilega, og fela í sér dauðadóm yfir sumum jarðarbúum.

„Við fréttum í síðustu viku að sumir framleiðendur jarðefnaeldsneytis hafi vitað full vel á áttunda áratugnum, að aðalframleiðsla þeirra myndi steikja plánetuna. Og líkt og tóbaksiðnaðurinn á sínum tíma, virtu þeir niðurstöður vísindamanna sinna að vettugi…Og rétt eins og með tóbaksiðnaðinn ber að draga þá til ábyrgðar, sem þessu réðu.“

Norður-suður gjáin

 Aðalframkvæmdastjórinn lýsti áhyggjum sínum yfir gjánni á milli austurs og vesturs og mögulegum aðskilnaði tveggja stærstu hagkerfa heims. Hann sagði að á sama tíma væri norður-suður gjáin einnig að dýpka.

Nígería er fjölmennasta ríki Afríku.
Nígería er fjölmennasta ríki Afríku. Mynd: Joshua Oluwagbemiga/Unsplash

„Ég er ekki viss um að ríku löndin og leiðtogar þeirra átti sig fyllilega á þeirri gremju og jafnvel reiði, sem ríkir á suðurhveli, í þeirra garð,“ sagði Guterres.

Hann sakaði fjármálakerfið um að vera „siðferðilega gjaldþrota“ og sagði að kerfislægur ójöfnuður hnykkti á félagslegum ójöfnuði.

„Þetta kerfi veldur því að afborganir fátækustu ríkja heims af skuldabyrði sinni jókst um 35% á síðasta ári einu saman.“

Hann hvatti til „umbóta og réttlætisvæðingar alþjóða fjármálakerfisins.“

„Ég hef hvatt G20 ríkin til að samþykkja heimsmarkmiða hvata-áætlun til þess að styðja ríkin í suðri, þar á meðal viðkvæm mið-tekjuríki.

Þau þurfa á aðgangi að reiðufé, skuldaeftirgjöf og endurskipulagningu að halda, auk langtíma lána, til þess að geta fjárfest í sjálfbærri þróun.“