Hávaðamengun : ógn við heilsu manna og dýra

0
640
Mynd: Canva.


Sívaxandi hávaðamengun er á meðal þeirra vandamála sem skapast hafa vegna aukinnar virkni mannsins og loftslagsbreytinga, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þar á meðal er aukin hljóðmengun sem hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks, en einnig dýra í þéttbýli, ekki síst fugla.

Í Evrópu einni saman má rekja 12 þúsund snemmbær dauðsföll og 48 þúsund ný tilfelli af hjartasjúkdómum árlega til langvarandi áhrifa hávaðamengunar, að því er fram kemur í skýrslunni.

Mynd: Iwona Castiello/Unsplash

Talið er 20% Evrópubúa eða meir en 100 milljjónir manna séu útsettir fyrir hávaðamengun. Það kostar ríkiskassa Evrópuríkja hundruð milljarða króna að fimmti hver þegn verði fyrir barðinu á hávaða.

Hávaði af manna völdum er margs konar; umferð í lofti jafnt sem á jörðu niðri, starfsemi skóla, framkvæmdir, nágrannar og vinnufélagar valda ónæði með hávaða.

Vandinn mikill í Evrópu

Árið 2018 var hávaði næstalgengasti umhverfisþáttur í veikindum í Evrópu, á eftir loftmengun að mati Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Ástandið versnar ár frá ári eftir því sem mannskepnan teygir anga sína víðar.

Mynd: Chairulfajar/Unsplash

Þeir sem verða fyrir barðinu á hávaðamengun til lengri tíma eiga á hættu svefnleysi og höfuðverk. Þar að auki er hávaðamengun talin geta átt þátt í að valda óeðlilega háum blóðþrýstingi, hjartasjúkdómum, sykursýki og varanlegum heyrnarskemmdum.

Hér eiga sérstaklega í hlut hinir yngstu og elstu að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem kemur út í dag.

Hátt hávaðastig truflar einnig líf margra dýra sem hafast við í borgum, þar á meðal fugla, froska og skordýra.

Lausnir eru til

Mynd: Metin Ozer/Unsplash

Gróður í borgarumhverfi dregur úr hávaða. Trjábolir, rætur og torfþök draga í sig hljóðorku og dempa hávaða, fyrir utan að vera borgarprýði og hjálpa dýrum og plöntum að þrífast í borgum.

 Borgarskipulagi ber að taka tillit þess vanda sem hávaðamengun skapar.

Græn svæði, stígar og kyrrlátir almenningsgarðar eru náttúrulegar lausnir. Þeir eru hljóðlátir valkostir við hávaða og stuðla að bættri geðheilsu.

Með því að fjölga umferðarhindrunum er hægt hægt að draga úr umferðarhávaða. Þá má hvetja til notkunar reið- og rafmagnshjóla.

Þessu til vibótar er hægt að takmarka flug og umferð járnbrauta, þar sem það á við. Einnig er hægt að setja skorður við hávaða af völdum nágranna og atvinnustarfsemi. Sérstaklega ber að hafa í huga að farið sé eftir ítrustu reglum um hljóðeinangrun í nýbyggingum.