Í fyrsta skipti í áratugi hefur börnum sem vinna fjölgað

0
828

Fjöldi barna sem þurfa að vinna hefur aukist  í fyrsta skipti í tvo áratugi í heiminum. COVID-19 faraldurinn hefur haft slæm áhrif á hópa sem standa höllum fæti. Lokun skóla hefur orðið til þess að börn hafa verið þvinguð til vinnu. Alþjóðlegur dagur gegn barnavinnu er haldinn 12.júní. Jafnframt er árið 2021 helgað baráttunni fyrir upprætingu barnavinnu.

Mynd: UNICEF-Patrick Brown

Samkvæmt sameiginlegri skýrslu Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) þurftu 160 milljónir barna í heiminum að stunda vinnu í ársbyrjun 2020. Er það 8.4 milljónum fleiri en fyrir aðeins 4 árum.

Nærri tíunda hvert barn í heiminum stundar vinnu. Slíkt hamlar skólagöngu þeirra og námi og grefur undan þroska og skaðar líkamlega- og andlega heilsu.

Þegar reynt er að sporna við barnavinnu er það vitaskuld einfaldlega sökum æsku þeirra. Einnig er horft til þess að börn  tengist ekki hættulegri starfsemi sem stofnar geð- eða líkamlegri heilsu þeirra í voða eða grefur undan menntun þeirra eða félagslegri virkni.

Alþjóða vinnumálasambandið (ILO)

Árið 2002 hélt Alþjóða vinnumálastofnunin Alþjóðlegan dag gegn barnavinnu í fyrsta skipti til að vekja athygli á hlutskipti barna á vinnumarkaði.

Fjölmörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa fullgiltl alþjóðlega samninga gegn barnavinnu í sinni verstu mynd og staðfest samkomulag um lágmarksaldur til að geta stundað vinnu.

Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig samþykkt Barnsáttmálann sem tryggir öllum börnum heims réttindi.

Tíunda hvert barn á vinnumarkaði

Í minnst þróuðu ríkjum heims stundar rétt rúmlega fjórðungur barna á aldrinum 5 til 17 ára vinnu sem talin er hamla þroska þeirra og skaða heilsu.

Í fjórða Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna  er kveðið á um að tryggja beri öllum  jafnan aðgang  að góðri menntun, enda forsenda fyrir bættum lífsgæðum í heiminum.

Allar stúlkur og drengir ættu að hafa jafnan aðgang að ókeypis menntun.

Börn sem þurfa að stunda vinnu eru svipt kennslu, helbrigði og öruggri framtíð. Sum týna meira að segja lífi. Þau vinna oft og tíðum langan vinnudag við hættulegar aðstæður. Mörg sæta illri meðferð og fá sjálf lítið eða ekkert greitt.

Í heimsmarkmiði númer 8 er stefnt að því að stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla. Í sjöunda undirmarkmiði er hvatt til þess að binda enda á alla barnavinnu fyrir árið 2025.

Aðgerðavika

Sérhvert barn á rétt á frelsi og öryggi. Á Alþjóðadaginn gegn barnavinnu er kastljósi beint að Alþjóðlegu ári upprætingar barnavinnu 2021. 

Þetta er fyrsti Alþjóðadagurinn gegn barnavinnu frá staðfestingu Samnings Alþjóða vinnumálastofnunarinnar númer 182 um verstu tegundir barnavinnu. 

Hann er haldinn í skugga COVID-19 heimsfaraldursins en afleiðingar hans grafa undan árangri undanfarinna áratuga.

Aðgerðavika hefst 12.júní með kynningu nýs mats á barnavinnu um allan heim. Þá verða umræður haldnar á alþjóðlegum vettvangi og ungliðar láta til sín taka í umræðum um hvernig ná beri settu marki fyrir 2025. Sérstaklega verður rætt um viðleitni til að standa við fyrirheit sem gefin hafa verið í tilefni Alþjóðlega ársins gegn  barnavinnu 2021 ( “2021 Action Pledges.” )