Sameinuðu þjóðirnar halda áfram að aðstoða milljónir Úkraínumanna 2 árum eftir innrás Rússa

0
7
Þetta nýfædda barn er í öruggum höndum, en 14.febrúar lést ófrísk kona í árás Rússa á sjúkrahús í Selydove í Donetsk-héraði.
Þetta nýfædda barn er í öruggum höndum, en 14.febrúar lést ófrísk kona í árás Rússa á sjúkrahús í Selydove í Donetsk-héraði. Mynd: Tetiana Korinets/UNFPA

23 febrúar 2022 gerði Rússland allsherjarinnrás í Úkraínu. Nú, tveimur árum síðar, telja Sameinuðu þjóðirnar að 14.6 milljónir, eða 40% Úkraínubúa þurfi á mannúðaraðstoð að halda í ár.

„Þótt sífellt minna sé talað um Úkraínu, hefur ástandið hér í landinu orðið æ öfgafyllra,“ segir Saviano Abreu talsmaður OCHA, Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, í samtali við UNRIC.

 „Í bæjum og þorpum nærri víglínunni er þörfin á mannúðaraðstoð farin að nálgast hamfarastig.“

Oleksandr hefur ofan af fyrir tveggja ára dóttur innan um rústir í Úkraínu.
Oleksandr hefur ofan af fyrir tveggja ára dóttur innan um rústir í Úkraínu. Mynd: UNICEF/Aleksey Filippov

Upprifjun

Þótt Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi ekki komið sér saman um ályktun eða aðgerðir til að stöðva stríðið hefur Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna látið til sín taka.

Eftir innrásina var Allsherjarþingið kvatt saman til sérstaks neyðarfundar og var samþykkt ályktun. Þar var þess krafist að Rússland „skyldi tafarlaust, að fullu og skilyrðislaust draga heri sína frá alþjóðlega viðurkenndu ukraínsku landsvæði.”

Vel rúmlega tveir-þriðju hlutar 193 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með tillögunni, eins og tilskilið er til að ályktun af þessu tagi nái fram að ganga. 35 sátu hjá og aðeins 5 greiddu atkvæði á móti. Auk Russlands voru það Erítrea, Hvíta Rússland, Norður-Kórea og Sýrland.

Móðir og barn í flóttamannabúðum í Póllandi.
Móðir og barn í flóttamannabúðum í Póllandi.

Sameinuðu þjóðirnar veita mannúðaraðstoð

Þótt Öryggisráðið sé lamað hafa Sameinuðu þjóðirnar veitt umtalsverða mannnúðaraðstoð í Úkraínu, aðstoðað flóttamenn og leitað diplómtískrar lausnar.

Innrásin hefur valdið miklum þjáningum innan og utan Úkraínu.

Staðreyndirnar tala sínu máli.

 • Rúmlega 30 þúsund óbreyttir borgarar hafa týnt lífi eða særst. Þar af hafa að minnsta kosti 10 þúsund látið lífið. Hér er einungis um að ræða dauðsföll, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa getað staðfest, en langlíklegast er að talan sé mun hærri.
 • Rúmlega 6.4 milljónir hafa flúið land og 3.7 milljónir hafa flúið heimili sín og fundið griðastað innanlands.
 • Þriðji hver landsmaður hefur því orðið að yfirgefa heimili sitt, þar á meðal helmingur úkraínskra barna.
 • Hlutfall fátækra hefur aukist úr 5% í 24% að mati Alþjóðabankans. 7.1 milljón Úkraínumanna er því fyrir neðan fátæktarmörk.
 • Nærri 4 þúsund skólar, leikskólar og aðrar menntastofnanir hafa eyðilagst eða skemmst. Í Donetsk-héraði hefur 80% húsnæðis, sem hýsir slíka starfsemi, eyðilagst.
 • Aðeins þriðjungur úkraínskra barna nýtur fullrar kennslu.
 • Rúmlega 3.3 milljónir, þar af 800 þúsund börn, lifa nærri víglínunni og þurfa á neyðraaðstoð að halda.

  Fæðingadeild í Kyiv höfuðborg Úkraínu
  Fæðingadeild í Kyiv höfuðborg Úkraínu hefur verið flutt niður í kjallara í öryggisskyni. © UNICEF/Oleksandr Ratushniak

Sjúkrahús eru skotmörk

Sjúkrahús hafa verið hernaðarleg skotmörk frá upphafi innrásarinnar. Sameinuðu þjóðirnar hafa staðfest 1500 árásir á heilbrigðisstofnanir. Nærri helmingur heilbrigðsstofnana er óstarfhæfur á sumum stöðum í austur- og suðurhluta landsins.

Í síðustu árásinni, 14.febrúar, lést ófrísk kona á sjúkrahúsi í Selydove, Donetsk.

„Við erum harmi slegin þegar kona sem gengur með barn og fleira fólk lætur lífið eins og raunin var í árásinni á heilsugæslustöðina í Selydove,“ segir Massimo Diana, fulltrúi Mannfjöldastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) í Úkraínu. „Það er ekki hægt að réttlæta það grimmdarverk að ráðast á sjúkrahús þar sem nýtt líf er að sjá dagsins ljós.“

 Paul Heslop starfar við að hreins jarðsprengjur í Úkraínu fyrir UNDP.
Paul Heslop starfar við að hreinsun jarðsprengna í Úkraínu fyrir UNDP. Mynd: UNPD/UKRAINE

Jarðsprengur í þriðjungi Úkraínu

Búast má við að jarðsprengjur grandi fólk og særi löngu eftir að stríðinu lýkur formlega. Sameinuðu þjóðirnar vinna með Úkraínustjórn og samstarfsaðilum við að takast á við þá hættu sem stafar af ósprungnum sprengjum, jarðsprengjum og klasasprengjum.

Nú er talið að finna megi jarðsprengjur og skothylki með virku sprengiefni á þriðjungi landsvæðisins.

Þetta hefur áhrif víða um heim því þetta setur strik í reikning landbúnaðar og eykur á kornskort í hungruðum heimi.

„Ef ég sinni ekki starfi mínu, kunna börn að svelta í Sómalíu eða Afganistan,“ segir Paul Heslop tæknilegur ráðgjafi í jarðsprengjuhreinsun UNDP í Úkraínu.

Jarðsprengjur valda búsifjum í landbúnaði og minna korn verður til skiptanna til útflutnings til sveltandi fólks.
Jarðsprengjur valda búsifjum í landbúnaði og minna korn verður til skiptanna til útflutnings til sveltandi fólks. Mynd: UNDP

Leitað friðsamlegrar lausnar

Sameinuðu þjóðirnar hafa stutt hvers kyns friðarumleitanir frá því allsherjarstríðið braust út fyrir tveimur árum. Þar er byggt á Stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, alþjóðalögum og ályktunum Allsherjarþingsins. António Guterres aðalframkvæmdastjóri hefur ítrekað sagt að samtökin séu reiðubúin að veita sína þjónustu ef vilji sé til viðræðna eða samninga.

Guterres hefur ferðast þrívegis til Úkraínu og einnig átt fund með Vladimir Pútin Rússlandsforseta í Moskvu 26.apríl 2022.

António Guterres virðir fyrir sér verksummerki eftir árás Rússa á Buch í útjaðri Kænugarðs.
António Guterres virðir fyrir sér verksummerki eftir árás Rússa á Buch í útjaðri Kænugarðs. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland miðluðu málum þegar svokallað Svartahafs-frumkvæði leiddi til samnings um útflutning matvæla og áburðar frá Úkraínu og Rússlandi.

 • Tryggður var öruggur flutningur nærri 33 milljóna tonna af mat frá Úkraínu til 45 ríkja í þremur heimsálfum.
 • 20% matvælanna, þar á meðal 42% útflutnings hveitis samkvæmt samkomulaginu, fór til lág- eða meðaltekjuríkja.
 • 7% útflutts hveitis var keypt af Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP). Hún flutti 725 þúsund tonn til bágstadds fólks í Afganistan, Eþíópíu, Kenía, Sómalíu, Súdan og Jemen.
 • Síðast en ekki síst stuðlaði Svartahafs-frumkvæðið að  lækkun matarverðs á heimsmarkaði. Í júní 2023 hafði matarvísitala Matar- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) lækkað um 23% miðað við hæstu stöðu í mars 2022.