Hvað er sáttmálinn um þjóðarmorð?

0
132
Þjóðarmorð. Börn frá Rúanda, sem misst höfðu foreldra sína, hvílast í flóttamannabúðunum Ndosha í Goma í Lýðveldinu Kongó 25.júlí 1994.Mynd: UN Photo/John Isaac
Þjóðarmorð. Börn frá Rúanda, sem misst höfðu foreldra sína, hvílast í flóttamannabúðunum Ndosha í Goma í Lýðveldinu Kongó 25.júlí 1994.Mynd: UN Photo/John Isaac

Alþjóðasáttmálin um þjóðarmorð. Gasasvæðið. Alþjóðadómstóllinn. Suður-Afríka hefur stefnt Ísrael fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag fyrir meint þjóðarmorð á Gasasvæðinu. Að mati Suður-Afríku felast brot á Alþjóðasáttmálanum um bann við þjóðarmorði í núverandi ástandi á Gasa en þar búa 2.3 milljónir Palestínumanna og sæta látlausum sprengjuárásum Ísraelsmanna.

Munnlegur málflutningur um bráðabirgðaaðgerðir fer fram 11.og 12.janúar 2024. Suður-Afríka heldur því fram að, fyrst og fremst frá 7.október 2023, hafi „Ísrael látið undir höfuð leggjast að hindra þjóðarmorð og hafi ekki sinnt skyldu sinni til að ákæra fyrir beinar og opinskáar hvatningar til þjóðarmorðs.“

Sönnungargögn, sem lögð voru fyrir Alþjóðlega glæpadómstólinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu. Mynd: ICTY/Isabella Tan Hui Huang

Sönnungargögn, sem lögð voru fyrir Alþjóðlega glæpadómstólinn fyrir fyrrverandi Júgóslavíu. Mynd: ICTY/Isabella Tan Hui Huang

En hvað er þá Alþjóðlegi sáttmálinn um þjóðarmorð?

Þjóðarmorð var í fyrsta skipti skráð sem sérstakur glæpur, samkvæmt alþjóðalögum, í Sáttmálanum um þjóðarmorð árið 1948 en hann gekk í gildi árið 1951. Hann var fyrsti mannréttindasáttmálinn sem Allsherjarþingið samþykkti og var yfirlýsing alþjóða samfélagsins um að voðaverk síðari heimsstyrjaldarinnar myndu “aldrei aftur” líðast.  Samþykktin var þýðingarmikið skref í þróun alþjóðlegra mannréttinda og alþjóðlegra glæpalaga sem við þekkjum í dag.

Þriggja ára gamall drengur á Nasser sjúkrahúsinu. Taka varð hluta hægri fótar af honum eftir árás ísraelska-hersins.
Þriggja ára gamall drengur á Nasser sjúkrahúsinu. Taka varð hluta hægri fótar af honum eftir árás ísraelska-hersins.
Mynd. © UNICEF/Abed Zaqout

Sáttmáli um þjóðarmorð

Samkvæmt Sáttmálanum um þjóðarmorð er það glæpur sem getur jafnt verið framinn á stríðs- sem friðartímum.  Þrátt fyrir heitstrengingar í lok síðari heimstyrjaldarinnar hefur sagan endurtekið sig og nægir að nefna Rúanda (1994) og Srbrenica (1995).

Í sáttmálanum er hugtakið „þjóðarmorð“ skilgreint í fyrsta skipti. Hann skiptist í 19 greinar. Þar eru þau ríki sem hafa staðfest eða gerst aðilar að sáttmálanum, skylduð til að hindra og refsa fyrir glæpi, sem teljast til þjóðarmorðs.

153 ríki eru aðilar að sáttmálanum. 41 ríki eru það ekki; 18 í Afríku, 17 í Asíu og 6 í Ameríkunum.

Hvað þýðir þjóðarmorð

Samkvæmt annari grein sáttmálans felst þjóðarmorð í eftirfarandi gjörðum, sem hafa að markmiði að uppræta að hluta eða heild hópa, sem skilgreinast hvort heldur sem er af þjóð, ættbálki, kynþætti eða trú.

Hópmorð er skilgreint á eftirfarandi máta í íslenskum lögum, sem byggja á skilgreiningu í þjóðarmorðssáttmálanum:

Eftirtaldir verknaðir teljast hópmorð þegar þeir eru framdir í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúflokki sem slíkum:

  1. a) að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi,
  2. b) að valda einstaklingum úr viðkomandi hópi alvarlegum líkamlegum eða andlegum skaða,
  3. c) að þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins eða hluta hans,
  4. d) að beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum,
  5. e) að flytja börn með valdi úr hópnum til annars hóps.

    Mál Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.
    Mál Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Mynd: CIJ/ Frank van Beek

Hvað er refsivert?

Samkvæmt þriðju grein sáttmálans eru eftirfarandi gerðir refsiverðar:

(a) Þjóðarmorð

(b) Samsæri um að fremja þjóðarmorð

(c) Bein og opinber hvatning um að fremja þjóðarmorð

(d) Tilraun til að fremja þjóðarmorð

(e) Þátttaka í þjóðarmorði

Hefur einhver friðhelgi frá ákæru um þjóðarmorð?

Nei.

Enginn hefur friðhelgi fyrir ákæru um þjóðarmorð. Samkvæmt sáttmálanum ber að refsa gerendum þjóðarmorðs, eða þeim sem sekir eru um önnur atriði sem nefnd eru í þriðju grein. Engu skipti hvort um er að ræða ráðamenn, embættismenn eða einstaklinga.

Hvar skal réttað?

Réttað skal yfir þeim, sem sakaðir eru um slíka glæpi, í þar til bærum dómstólum þar sem verknaðurinn var framinn.

Einnig er hægt að rétta yfir hinum kærðu fyrir alþjóðlegum glæpadómstóli, sem hefur lögsögu yfir einhverjum hlutaðeigandi aðila, sem hafa viðurkennt lögsögu þess dómstóls.

Þetta á við um Alþjóðadómstólinn (ICJ).

Ljósmyndasýning um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.
Ljósmyndasýning um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe

Helförin

Það var pólski lögfræðingurinn Raphäel Lemkin, sem bjó til hugtakið „þjóðarmorð” (genocide) árið 1944. Lemkin reyndi með því að finna orð yfir Helförina, þegar nasistar myrtu sex milljónir gyðinga, Róma- og hinseginfólk. Einnig vildi hann lýsa þeim verknaði þegar heilum þjóðum, kynþáttum og trúarhópum hafði verið útrýmt.  Í Nürnberg-réttarhöldunum var þjóðarmorð ekki talinn sérstakur glæpur. Það var notað til að lýsa atburðum en ekki notað sem lagalegt hugtak.